Á döfinni

Velkomin á vefsíðu Vatns- og fráveitufélags Íslands (VAFRÍs). Félagið hefur að markmiði að stuðla að bættum vatnsveitum og fráveitum. Á flipum efst á síðunni má finna fróðleik um vatns- og fráveitumál, með sérstakri áherslu á Ísland. Hér að neðan er það sem er á döfinni:

7.4.2025 Fræðslufundur um samspil eldvirkni og vatnsbóla
Félagið bauð til morgunfundar mánudaginn 7. apríl kl. 8:30-10:00 í Straumskiptastöðinni fyrir ofan gömlu Elliðarstöðina. Ingibjörg Þórðardóttir hjá Veðurstofu Íslands greindi frá mögulegum áhrifaþáttum frá eldgosum á vatnsból almennt. Þá sagði Valdís Guðmundsdóttir hjá HS Orku frá reynslu fyrirtækisins af áhrifum núverandi eldsumbrota á neysluvatnsból. Loks reifaði Auður Agla Óladóttir hjá Íslenskum Orkurannsóknum (ÍSOR) möguleika í stöðunni ef núverandi neysluvatnsból að Lágum spillist eða lendir undir hrauni. Ánægja var með fundinn sem var vel sóttur bæði í raun og netheimum.  Erindi má nálgast hér.

19.12.2024 Fræðslufundur um nýju Evróputilskipunina
Á fræðslufundinum rifjaði Hlöðver Stefán Þorgeirsson, verkfræðingur og formaður stjórnar Vatns- og fráveitufélagsins, upp stöðu fráveitumála á Íslandi í dag og dró upp mynd af þeim kröfum sem íslenskir þéttbýlisstaðir þyrftu að mæta ef ákvæði hinnar nýsamþykktu tilskipunar rata inn í íslenskt regluverk óbreytt. Sigurbjörg Sæmundsdóttir fulltrúi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hjá sendinefnd Íslands gagnvart ESB kynnti í kjölfarið EES samninginn og hlutverk hagsmunagæslu í Brussel varðandi nýja fráveitugerð, lögleiðingarferlið í ESB og hvernig unnið verður að upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Fundurinn fór fram í félagsheimili OR í Elliðárdal og var einstaklega vel sóttur, húsfyllir á staðnum og 32 fylgdust með fundinum á teams. Glærur af fundinum má nálgast hér.

23.10.2024 Morgunverðarfundur um mengun í jarðvegi
VAFRÍS í samvinnu við Háskóla Íslands bauð til morgunverðarfundar um mengun í jarðvegi.  Um 30 manns sóttu fundinn.  Fyrst hélt Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur HS veitna, erindi „vatnsvernd í varnarbaráttu“ þar sem hann reifaði áskoranir við að tryggja heitt og kalt vatn á næstu áratugum meðan eldsumbrot eru á Reykjanesskaga. Þá lýsti Erla Guðrún Hafsteinsdóttir hvernig jarðvegsmengun blasir fyrir ráðgjöfum, og nauðsyninni fyrir skýrara reglum, leiðbeiningum um sýnatöku, viðmiðunargildum viðeigandi fyrir íslenskan jarðveg, og hver eigi að bera ábyrgð á að hreinsa jarðveg og hvernig. Loks tók Prófessor Rainer Lohmann til máls og ræddi hversu útbreidd jarðvegsmengun væri í Bandaríkjunum, og hvernig ríkisstjórnin hefur komið á Superfund og LUST fjármögnun til að hreinsa mengaðan jarðveg. Glærur og upptöku af fundinum má nálgast hér.

30.5.2024 Aðalfundur VAFRÍS og Vísindaferð í Lýsi hf.
Aðalfundur félagsins fór fram í sal Bryggjunnar brugghúss, Grandagarði, þann 30. maí 2024 klukkan 15:00. Fyrir aðalfundinn heimsóttu félagsmenn Lýsi hf, sem kynnti starfsemina, gæðaferla og hvernig affalsvatn væri hreinsað áður en það væri dælt út í sjó. Sóttu margir viðburðinn og var almenn ánægja bæði með vísindaferðina og veitingar á aðalfundi.

27.4.2023 Aðal- og fræðslufundur VAFRÍS
Aðalfundur félagsins verður haldinn á Litla Torgi í Háskóla Íslands, fimmtudaginn 27. apríl kl. 14.  Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum verður fræðslufundur til minningar um Jónas Elíasson, prófessor við umhverfis-og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands og meðstjórnanda VAFRÍS sem féll frá í ársbyrjun. Boðið verður upp á kaffi með fræðslufundinum. Nánari dagskrá og upptaka má finna hér.

14.12.2022 Fræðslufundur um brunavatn og hönnun vatnsveitna mtt. slökkvistarfa
Félagið efnir til fræðslufundar á aðventunni um brunamál. Fulltrúar frá Slökkviliðiði höfuðborgarsvæðins, Norðurorku og Hitaveitu Egilstaða og Fella ásamt Slökkviliðinu á Héraði munu fjalla um efnið og segja reynslusögur af brunaatburðum og áskorunum vatnsveitna við öflun slökkvivatns. Fundurinn er kl. 14-16 hjá EFLU, Lynghálsi 2, en einnig verður streymt frá fundinum. Dagskrá og glærukynningar má finna hér.

25.08.2022  Vísindaferð á vatnstökusvæði höfuðborgarinnar
Eftir 5 ára hlé er stefnt að vísindaferð um Gvendarbrunna eftir hádegi 25. ágústs.  Meðal atriða á dagskrá er að skoða nýja síritandi vatnsgæðamæla og hlýða á sérfræðinga OR samstæðunnar um vatnstöku í Heiðmörk. þá er stefnt að njóta veitinga í nýrri aðstöðu við Elliðaárvirkjun eftir vísindaferðina. Nánari dagskrá verður kynnt síðar.

19.05.2022  Aðal- og fræðslufundur VAFRÍ
Aðalfundur félagsins verður haldinn í Öskju, húsi náttúruvísinda innan Háskóla Íslands, fimmtudaginn 19. maí 2022 kl. 14.  Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum verður fræðslufundur um flóð í þéttbýli og skilvirkni blágrænna ofanvatnslausna, sem lykilburðarliður að ná sjálfbærnimarkmiði nr. 11, um sjálfbærar borgir og samfélög.  Í lok fundarins (kl. 16) verður boðið upp á veitingar. Nánari dagskrá hér.

20.04.2022  Innheimta félagsgjalda
Innheimta félagsgjalda er hafin og stefnt er að aðalfundi í maí.

22.03.2022  Dagur vatnsins – Grunnvatn, hin falda auðlind
Í ár beindist athyglin á alþjóðlegum degi vatnsins að grunnvatninu okkar. Veitur skrifuðu í fjölmiðlum: „Á meðan við njótum á ábyrgan hátt þeirra gjafa sem náttúra okkar hefur upp á að bjóða skulum við sífellt hafa það í huga að forréttindi okkar eru ekki sjálfgefin og að samheldni og samstillt átak þjóðar þarf til þess að þeirra verði áfram notið um ókomin ár.“ Íslenska vatnafræðinefndin benti á að „umsóknum um leyfi vegna vatnstöku fjölgar samtímis og mælingum sem gefa upplýsingar um mengun og magn grunnvatnsauðlindarinnar fækkar jafnt og þétt. Verulegt fjármagn vantar til að gera heildrænt mat á grunnvatnsauðlindinni, og til að meta breytingar á grunnvatni í tíma og rúmi, bæði vegna nýtingar og náttúrulegra breytinga. Á sama tíma eru sífellt gerðar meiri kröfur um sjálfbærni vatnstöku sem og vottun og upprunamerkingu.“ Þá töluðu vísindamenn Háskóla Íslands um mikilvægi þess að vera efnavar og spar, og huga að því að allt sem við gerum ofanjarðar getur haft áhrif á vatnið okkar. Sem dæmi, helsta uppspretta örplastagna í vatni er slit asfalts, sem er mest tilkomin vegna nagladekkjanotkurnar.

21.02.2022  Málþing um stöðu og framtíð skólphreinsunar á Íslandi
Í fyrsta sinn í rúm tvö ár mun félagið halda staðfund (ásamt möguleika á fjarfundarþáttöku). Á fyrri fundinum, sem haldinn verður í fyrirlestrarsal Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi fimmtudaginn 24. febrúar kl. 15, munu fjórir fyrirlesara ræða stöðu fráveitu á Íslandi og í Noregi.  Á seinni fundinum verða ræddar hugmyndir um aðgerðir. Nánari dagskrá er að finna r og á fésbókarsíðu félagsins.

13.10.2021  Fræðslu-og umræðufundur VAFRÍ um áhrif þurrka sumarið 2021
Um 45 manns tóku þátt í fræðslu- og umræðufundi VAFRÍ um þurrka sl. sumar. Aðalsteinn Þórhallsson kynnti starfsemi HEF Veitna á Austurlandi og ræddi viðbrögð og ráðstafanir bænda, búaliðs og veitunnar í þurrkunum. Oddgeir Sigurjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra greindi frá áhrifum þurrkanna á Norðurlandi Eystra. Félagsmenn ræddu um mikilvægi veðurmælinga til að fyrirsjá vatnsþurrð, möguleika á styrkjum fyrir vatnsöflun, samvinnu sveitarfélaga og vatnsfrekra búgreina, samvinnu um gögn og birtingu þeirra í rauntíma, um kostnaðarábata mismunandi aðgerða, og mikilvægi vatnsverndar við ákvörðun á staðsetningu vatnsbóla. Hægt er að nálgast upptöku af fundinum hér.

06.05.2021  Fjarrænn aðal- og fræðslufundur 
Þrjátíu og átta félagsmenn sóttu fjar-aðalfund VAFRÍ fimmtudaginn 6. maí kl. 13:00-13:30. Á aðalfundinum var kosinn nýr formaður, Hlöðver Stefán Þorgrímsson, og Hrund Ó. Andradóttur þakkað fyrir 9 ára formennsku.  Sigrún Tómasdótttir, jarðfræðingur hjá Veitum, var kosin í stjórn og  Önnu Heiði Eydísardóttir þakkað fyrir störf í þágu félagsins.  Í kjölfar aðalfundar fór fram fræðslufundur um veitur á tímum náttúruvár.  Sigrún Guðmundsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands greindi frá starfi HES í tengslum við náttúruvá og Sigrún Tómasdóttir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá vöktun vatnsgæða. Nánari lýsing um erindin eru hér. Hægt er að nálgast upptökur af fræðsluerindunum á fésbókarsíðu félagsins. 

20.04.2021  Fræðslufundur VAFRÍ um uppfærðan endurkomutíma úrkomu
Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, kynnti nýlokið verkefni sem fól í sér að uppfæra mat á endurkomutíma úrkomu.  Afurðir verkefnsins eru uppfærð 1M5 kort sem innihalda fleiri smáatriði en eldri útgáfa þar sem innlagsgögn eru í mun þéttriðnara neti. Kortin eru bæði byggð á 24 klst úrkomu (frá miðnætti til miðnætti, tilsvarandi eldri útgáfu Jónasar Elíassonar), svo og fljótandi tímabil.  Hærri endurkomugildi eru við fjöll, s.s. á Snæfellsnesi og Tröllaskaga, sem og í Bláfjöllum og á Aust- og Vestfjörðum. Í skýrslunni er hægt að nálgast IDF kúrfur 43 veðurstöðvar, byggðar á úrkomumælingum og útreiknaðri úrkomu með Harmonie líkaninu. Kannaðar voru mismunandi aðferðir við útreikninga og var niðurstaðan að nýta þröskuldsaðferðina (e. Peak-over-threshold) þar sem gagnamengin tvö eru líkari með þeirri aðferð en með hámark innan tímabilsaðferðarinnar (e. Block Maxima), en einnig nýtir sú aðferð gögnin betur. Fjörutíu aðilar sóttu rafræna fundinn og skemmtilegar samræður spunnust upp í kjölfar kynningarinnar. Hægt er að nálgast upptöku af fræðsluerindinu á fésbókarsíðu félagsins.

19.11.2020  Alþjóðlegi klósettdagurinn: Ert þú klósettvinur?
Ár hvert er haldið upp á alþjóðlega klósettdaginn, til að vekja athygli á því að margir í heiminum búa enn við óviðunandi salernisaðstöðu (sjá t.d. heimsmarkmið SÞ nr. 6). Á Íslandi tóku Samorka, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin saman kynningarefni á vefsíðunni www.klosettvinir.isAllt sem þarf til að fræða fólk um að bara piss, kúkur og klósettpappír eiga heima í klósettinu!  Mjög skemmtilegt myndband með þessum skilaboðum má finna á síðunni!

7.09.2020  Morgunverðarfyrirlestrarröð 2020
Stjórn VAFRÍ óskar eftir hugmyndum að umfjöllunarefnum fyrir morgunverðarfyrirlestra hjá félagsmönnum. Hugmyndin er að hafa röð fyrirlestra, kl. 9-10, með áhugaverðu innleggi eða verkefnum.  Eitt erindi í hvert sinn, 20-40 mín og umræður. Endilega sendið gjaldkera félagsins hugmyndir á netfangið hlodvers@veitur.is.

11.05.2020  Aðalfundur með breyttu sniði vegna COVID
Stjórn VAFRÍ boðar til fjar-aðalfundar miðvikudaginn 27. maí kl. 13:00-13:30. Nálgast má frekari upplýsingar í aðalfundarboði hér, en gott er að félagsmenn prófi virkni hugbúnaðar tímanlega.  Í kjölfar aðalfundar fer fram meistarvörn í umhverfisverkfræði. Nemandinn Selina Hube mun kynna nýjar rannsóknaniðurstöður á hvernig himnutækni geti nýst við skólphreinsun á Íslandi. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og verður búinn fyrir kl. 14:15.

11.05.2020  COVID og vatnsmál
Vísindaheimurinn hefur verið að rannsaka hvort Kóronavírusinn geti borist með fráveitum.  Nýlegar greinar og opinber skjöl er deilt á fésbókarsíðu félagsins. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í umræðunni. Stjórn VAFRÍ mun fjalla um þetta á aðalfundi í lok maí og hefur dregið saman nokkra punkta hér.

22.03.2020 Dagur Vatnsins leggur áherslu á vatn og loftslag
Þema Alþjóðlegs Dags Vatnsins 2020 er „Loftslag og vatn“. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að samræma áherslur, að minna á og auka hlut vatns í umræðunni um loftslagsmál. Skilaboð dagsins: Við megum engan tíma missa; Vatn er til varnar loftslagsbreytingu; Það verða allir að legga hönd á plóginn – því dropinn holar steininn eins og kemur fram í áhugaverðri frétt sem unnin var af Veðurstofu Íslands í samvinnu við Íslensku Vatnafræðinefndina, sem má lesa hér.

14.11.2019 Fundur um framtíðarsýn í veitumálum
VAFRÍ hélt eftirmiðdagsfundi hjá Eflu verkfræðistofu þar sem rædd voru nýleg verkefni á landsvísu og hjá sveitarfélögum. Ragnhildur Gunnarsdóttir umhverfisverkfræðingur hjá EFLU kynnti Jafnvægisás ferðamála. Garðar Gíslason sérfræðingur snjallkerfa hjá Veitum kynnti Innleiðingu snjallra lausna í vatnsveitu Álfaness. Hlöðver Stefán Þorgeirsson ræddi um stefnu og framtíðarsýn Veitna í skólphreinsun. Nálgast má frekari upplýingar, þám. glærur hér.

8.5.2019 Aðalfundur VAFRÍ
Aðalfundur VAFRÍ fór fram hjá Mannviti í Urðarhvarfi í Kópavogi þriðjudaginn 7. maí kl. 11:30-13:30.  Í kjölfar hefðbundinna aðalfundarstarfa fór fram málstofa í anda sjónvarpsþáttanna „Hvað getum við gert„.  Rædd voru áhrif hnattrænnar hlýnunar og sjálfbærni í tengslum við vatns- og fráveitur. Nánari dagskrá má finna hér.  Um 40 félagsmenn sóttu fundinn. Mannvit er þakkað fyrir einstaklega góðar móttökur og ljúffengan hádegisverð.

24.10.2018 Hádegisfundur um himnur
VAFRÍ stendur fyrir hádegisfundi um hvernig himnur geta nýst í vatns- og fráveitum.  Bing Wu, nýr lektor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands kynnir tæknina. Síðan fylgja styttri erindi frá mögulegum notendum tækninnar. Athugið að fundurinn fer fram á ensku. Nánar hér

2.5.2018 Aðalfundur VAFRÍ og hugvekjur um framtíð skólps og ofanvatns á Íslandi
27 félagar VAFRÍ sóttu aðalfundinn sem haldinn var í Háskóla Íslands. Fundinum stýrði Aldís Ingimarsdóttir, verkfræðingur og kennari við HR, með aðstoð Brynjólfs Björnssonar, verkfræðings hjá Mannviti.  Formaður kynnti skýrslu stjórnar, og gjaldkeri ársreikninga. Þorsteinn Narfason og Baldur Dýrfjörð voru kosnir til 2 ára í stjórn í stað Maríu Jónu Gunnarsdóttur og Sigurjón Kjærnested. Félagið þakkar Maríu og Sigurjóni fyrir samstarf síðastliðinna ára. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf héldu Sigurður Grétar Sigmarsson, verkfræðingur hjá Verkís, og Ragnhildur Gunnarsdóttir, verkfræðingur hjá Eflu, hugvekju um framtíð skólps og ofanvatns á Íslandi.  Hægt er að horfa á aðalfundinn hér.

23.11.2017 Vatnamælingar Veðurstofu Íslands 70 ára
Í ár eru liðin 70 ár frá því að kerfisbundnar vatnamælingar hófust á þáverandi Raforkumálaskrifstofu. Þessum tímamótum verður fagnað fimmtudag 23. nóvember með málþingi um vatnamælingar og tengd málefni. Málþingið hefst kl. 14:30 og stendur til kl. 17:00 en í kjölfarið verður boðið upp á léttar veitingar. Dagskrá má finna vefsíðu VÍ og fólk er beðið um að skrá sig fyrir kl. 12 22. nóvember á skraning@vedur.is.

20.11.2017 Fundur Samorku um fráveitumál „hlúum að fráveitunni“
Fundur um fráveitumál verður á Grand Hóteli kl. 12.00 mánudaginn 20. nóvember. Á fundinum verður fjallað um stöðu fráveitunnar í fortíð, nútíð og framtíð. Fjallað verður um viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi, rýnt verður í innviðaskýrslu SI og þær framkvæmdir sem eru í spilunum í náinni framtíð. Að lokum verður rætt hvað þurfi að gerast til þess að fráveitumál komist í gott horf fyrir alla landsmenn, sem getur verið samspil margra ólíkra þátta.

Fráveitan hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, m.a. eftir útgáfu Umhverfisstofunnar á skýrslu um stöðu fráveitumála og skýrslu SI og FRV um  ástand innviða á Íslandi. Einnig var nokkuð ítarlegt innslag um fráveitumál á Íslandi í fréttaskýringaþættinum Kveikur á RÚV 14. nóvember.

27.09.2017 Málþing til heiðurs Dags Jónssonar veitustjóra

Mikið fjölmenni sótti hálfsdags málþing VAFRÍ sem minntist framlaga Dags Jónssonar til fagsviðs veitna miðvikudaginn 27. september frá 13:30-16:00. Dagur var afkastamikill veitustjóri sem lét til sín taka á breiðum vettvangi innan vatns- og fráveitugeirans. Hann var m.a. stjórnarmeðlimur VAFRÍ um nokkurra ára skeið. Dagskrá og efni málþingsins má finna hér.

22.06.2017 Aðalfundur og árshátíðar-vísindaferð VAFRÍ

Aðalfundur félagsins verður haldinn 22. júní kl. 12.00 í ráðstefnusal í húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1. Boðið verður upp á samlokur yfir aðalfundarstörfum. Strax í kjölfar aðalfundar verður farið í árshátíðar- og vísindaferð þar sem við ætlum að fræðast um vatns- og fráveituverkefni hjá Uppsveitum á Suðurlandi og gera okkur glaðan dag í lokinn með mat og drykk. Í Uppsveitum Suðurlands munum við m.a. skoða kölkunarstöð seyru á Flúðum, vatnsveitu við Borg og Búrfell, nýja hreinsistöð sem verið er að setja niður á Brautarholti og heyra um helstu verkefni sem eru í gangi á svæðinu. Við endum svo í mat og drykk í Þrastalundi.

VAFRÍ greiðir fyrir rútu og Samorka, Tæknisvið Uppsveita og Veitur bjóða félagsmönnum upp á léttar veitingar og drykki yfir daginn. Hver þátttakandi greiðir svo fyrir kvöldverð, en í boði verður pizzahlaðborð í Þrastalundi sem kostar 2200 kr. á mann, með gosi.

22.03.2017 Alþjóðlegi dagur vatnsins

Í ár er málefnið „Fráveituvatn, hin vannýtta auðlind“. Meðan í þróunarlöndum er áherslan lögð á að byggja fráveitukerfi, er áherslan í þróuðum löndum að nýta betur afurðirnar. Áhugavert innlegg sem viðkemur Íslendinga er mörg ríki eru að víkja frá hefðbundnum miðlægum lausnum sem eru dýrar og henta oft ekki nægilega vel litlum bæjarfélögum, yfir í dreifðar lausnir sem þjóna nokkrum húsum. Hægt er að lesa meira í skýrslu SÞ og fréttatilkinningu VÍ.

15.02.2017 Fyrsti örfyrirlestur 2017 – Blágrænar ofanvatnslausnir

Á fyrsta örfyrirlestri 2017 var minning Sveins Torfa Þórólfssonar, Prófessor við NTNU í Noregi, heiðruð. Viðfangsefnið var blágrænar ofanvatnslausnir, sem var eitt helsta áhugamál og fagsvið Sveins Torfa síðustu áratugina. Nýjar leiðbeiningar og rannsóknir á Íslandi voru kynntar, og hlýtt á skemmtilegar frásagnir frá æsku Sveins. Um 70 manns sóttu viðburðinn. Félagið þakkar fyrir góðar undirtektir. Hægt er að nálgast glærur og annan fróðleik á örfyrirlestraröð félagsins hér.

13.02.2016 Andlátsfregn

Dagur Jónsson fyrrverandi stjórnarmeðlimur VAFRÍ og veitustjóri Hafnafjarðar lést 9. febrúar, eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein. Dagur átti farsælan starfsferil. Hann hóf störf hjá bæjarverkfræðingi í Hafnarfirði 1986, varð síðan vatnsveitustjóri og þar á eftir veitustjóri við sameiningu veitnanna. Hann hafði mikla þekkingu á vatnsbúskap og jarðsögu bæjarlandsins og kunni þá list að miðla þeirri þekkingu með skemmtilegum sögum. Hann tók vel á móti gestum sem vildu fræðast um vatnsveituna og kenndi fyrirlestra í framhaldskúrsi um vatns- og fráveitur við Háskóla Íslands við góðar undirtektir. Hann sinnti mörgum stjórnunarstörfum og sat meðal annars í stjórn vatnsveitu og fráveitufagráðs Samorku. Meðan hann sat í stjórn Vatns- og fráveitufélags Íslands 2012-2013, skipulagði hann ásamt Aldísi Ingimarsdóttur fjölsótt málþing sem bar heitið „Veikir hleikir í vatnsöflun“. Málþingið kynnti stöðu vatnsöflunar og velti fyrir hvaða ógnir gætu stafað í framtíðinni, með því markmiði að stuðla að auknu öryggi. Hægt er að nálgast glærukynningar og ráðstefnurit málþingsins hér. Vatns- og fráveitufélag Íslands minnist Dags með hlýju í hjarta, og vottar aðstandendum hans innilega samúð.

29.12.2016 Andlátsfregn

Sveinn Torfi Þórólfsson, prófessor emeritus í vatnaverkfræði við Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet (NTNU) í Þrándheimi, lést í nótt. Sveinn Torfi var frumkvöðull á sviði vatnsveitna og fráveitna. Á 30 ára starfsferli stundaði Sveinn Torfi kennslu, rannsóknir og ráðgjöf á þeim sviðum og hélt fjölda fyrirlestra og námskeið um víðan heim. Sveinn Torfi og hans meistara- og doktorsnemar hlutu fjölda verðlauna fyrir nýsköpun og þróun ofanvatnslausna á köldum svæðum.

Þrátt fyrir að verja starfsævi sinni í Noregi, hélt Sveinn ávallt sterkum tengslum við Ísland. Hann hélt fræðileg erindi, kenndi námskeið og veitti m.a. Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ og Vestmannaeyjabæ ráðgjöf um uppbyggingu fráveitukerfa. Hann var gestaprófessor við Háskóla Íslands og hjálpaði við kennslu. Hann var ötull talsmaður blágrænna ofanvatnslausna, og kom að innleiðingu og rannsóknum á slíkum kerfum í Urriðaholti. Sveinn var ein af aðaldriffjöðrum að stofnun Vatns- og fráveitufélags Íslands og vann náið með félaginu.

Sveinn Torfi var mjög drífandi maður og einstaklega áhugasamur um sitt fagsvið. Hann var hrífandi sögumaður og óþreytandi við að deila reynslusögum frá Evrópu og víðar að með íslenskum kollegum. Hann var ávallt reiðubúinn að hjálpa þegar leitað var til hans. Hans er sárt saknað.

Stjórn VAFRÍ vottar konu hans Sigríði E. Gunnarsdóttur og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

28.10.2016 Málþing um örplast í skólpi

Vatns- og fráveitufélag Íslands, VAFRÍ, og Samorka halda opið málþing um örplast í skólpi. Málþinginu er ætlað að varpa ljósi á þá þekkingu sem til er um málefnið hér á landi, um upptök og afdrif örplasts í skólpi og mögulegum hreinsiaðferðum til verndar lífríkis í viðtaka skólps. Nánari upplýsingar á vefsíðu viðburðar.

12.05.2016 Áköll um skólphreinsun til að vernda lífríki mývatns

Lífríki Mývatns hefur verið mikið í deiglunni undanfarið. Áköll til stjórnvalda hafa komið frá Skútustaðahreppi, Landvernd og fleirum. Í speglinum í kvöld  (frá 8. mín) tilkynnti umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir að starfshópur verði skipaður til þess að fara yfir málin og koma með tillögur. Ný skýrsla um næringarefni í Mývatni má finna á vefsíðu umhverfisráðuneytisins, sjá hlekk.

12.05.2016 Hádegisfundur um fráveitumál Vífilfells

Vífifell býður félagsmönnum VAFRÍ til hádegisfundar um frárennslismál föstudaginn 20. maí kl. 12-13. Hreinsa, frárennslisstöðin til fimm ára verður kynnt og skoðuð. Til þess að áætla veitingar, eru félagsmenn beðnir um að skrá sig á eftirfarandi hlekk.

12.05.2016 Norræn Vatnsveituráðstefna á Íslandi

Norræna Vatnsveituráðstefna verður haldin í Hörpu dagana 28.-30. september 2016. Samorka sér um skipulagningu ráðstefnunnar í samstarfi við önnur norræn samtök vatnsveitna. Á dagskrá verða erindi, vinnustofur, vísindaferð og fleira tengt öllum helstu málum er varða starfsemi vatnsveitna. Nánari upplýsingar má finna vefsíðu ráðstefnunnar.

06.05.2016 Afmælishátíð Ísleifs Jónssonar

Fyrirtækið Íslefir Jónsson býður félagsmönnum að sækja 95 ára afmælishátíð í húsi Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1, kl. 13.00 – 16.30 fimmtudaginn þann 12. maí 2016. Sérfræðingar frá Grundfos, Jens Erik Treldal og Klaus Gerhard Hansen munu kynna nýjustu lausnir á sviðið öflunar, veitu og losunar vatns.Farið verður yfir sögu fyrirtækisins í léttu tómi og þróun síðustu öld og ásamt athyglisverðum staðreyndum tvinnað saman við sögu Orkuveitunnar. Erlendir gestir munu færa okkur upplýsingar um það nýjusta er varðar vatnsöflun, dreifikerfi, fráveitur og netlausnir sem tvinna saman þessi efni. Áhugasamir tilkynni þátttöku á helgi@isleifur.is.

19.04.2016 Aðalfundur VAFRÍ 6. maí 2016

Vatns- og fráveitufélag Íslands heldur aðalfund í hádeginu föstudaginn 6. maí frá kl. 12-13. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf og jafnframt verður fyrirlestur frá Veitum um nýlegar rannsóknir á hreinsun gruggs úr vatnsbólinu Grábrók í Borgarfirði. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

19.04.2016 Vormálþing VAFRÍ á sviði minni vatnsveitna

Vatns- og fráveitufélag Íslands í samvinnu við Samorku heldur hálfsdags málþing Öryggi neysluvatn hjá minni vatnsveitum. Rannsóknir sýna að gæði drykkjarvatns í minni vatnsveitum er oft ábótavant á Íslandi og sérstaklega á ferðamannastöðum.  Rætt verður um stöðu mála og mögulegar úrbætur frá ólíkum sjónarhornum.  Málþingið verður haldið föstudaginn 13.maí nk. kl. 9.00 til 12.00 í Húsi atvinnulífsins Borgartúni 35, Reykjavík. Nánari upplýsingar og dagskrá málþings má finna hér.

27.11.2015 Eftirfylgni málþings um óhefðbundnar fráveitulausnir

Vatns- og Fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) hélt málþing um óhefðbundnar fráveitulausnir til verndar viðkvæmum viðtökum sl. maí. Til þess að fylgja eftir málþinginu, þá hefur stjórn félagsins sent eftirfarandi bréf á fyrirtæki og stofnanir sem koma að fráveitumálum. Markmið bréfsins er að upplýsa um niðurstöður málþingsins og hvetja til þess að fráveitumál í strjálbýli séu skoðuð á heildrænan hátt með sjálfbærni að leiðarljósi. Hægt er að nálgast skriflegt efni og vídeó af kynningum málþingsins hér.

18.09.2015 Vísindaferð VAFRÍ til Þingvalla

Fimmtudaginn 8. október ætlar VAFRÍ að fara til Þingvalla og fræðast um vatns- og fráveitumál innan þjóðgarðar, sumarbústaðabyggðar við Kárastaði, Nesjavelli og Ion Hótel.  Skráningar í ferðina eru hafnar. Nánari upplýsingar er að finna undir „Viðburðir“ á þessari heimasíðu.

19.03.2015 Málþing um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum með áherslu  á Þingvallavatn

VAFRÍ boðar til opins málþings um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum með áherslu á fráveitumál við Þingvallavatn föstudaginn 8. maí 2015 fyrir hádegi. Tilgangur málþingsins er að fara yfir stöðu mála og fá fram upplýsingar um hvaða lausnir eru í boði og hafa verið notaðar við svipaðar aðstæður og við Þingvallavatn. Einn reyndasti sérfræðingur Norðmanna á sviði óhefðbundna skólplausna, prófessor Petter D. Jenssen, mun kynna mögulegar lausnir fyrir dreifbýli og viðkvæm svæði, og deila reynslu sinni og Nágrannalanda af slíkum lausnum.  Einnig verða kynningar um bakgrunnsrannsóknir á Þingvallavatni og nýjar rannsóknir nemenda Háskóla Íslands á óhefðbundnum skólplausnum.  Dagskrá málþings má finna undir viðburðum á þessari síðu.

19.11.2014 Alþjóðlegi klósett dagurinn (World Toilet Day)

VAFRÍ vekur athygli á að í dag er alþjóðlegi klósett dagurinn sem er skipulagður af Sameinuðu Þjóðunum í samvinni við ríkisstjórnir og hagsmunaaðila.  Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því að 2,5 milljarðar jarðarbúa hafa ekki aðgang að fullnægjandi klósettaðstöðu og stór hluti þeirrar engri aðstöðu annarri en opinni náttúru. Konur og stúlkur verða fórnalömb nauðgana vegna vöntunar á einrúmi. Áhugasamir geta fræðst um daginn hér.

10.09.14 Vísindaferð á Suðurland 25. september

VAFRÍ skipuleggur vísindaferð til þess að skoða helstu vatns- og fráveitumannvirki og hlýða á erindi fagaðila um málefni Suðurlands.  Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig hér.

8.04.14 Málþing, ársfundur og innheimta félagsgjalda

Alls hlýddu 45 manns á erindi Reynis Sævarssonar og Sveins Þórólfssonar um nýjar rannsóknir og stefnur í vatns- og fráveitumálum í Háskóla Íslands í dag.  Þar á eftir fóru fram aðalfundarstörf.  Innheimta félagsgjalda fer fram um þessar mundir.  Stjórn VAFRÍ bendir á að félagsgjöld hafa verið greidd fyrir starfsmenn verkfræðistofanna Verkís, Efla, Mannvit og VSÓ ásamt Orkuveitu Reykjavíkur og Varma & Vélaverk.

Áhugasamir starfsmenn þessara fyrirtækja geta gengið í félagið án þess að borga félagsgjöld úr eigin vasa. Þeim er boðið að skrá sig í félagið með því að senda póst á Írisi Þórarinsdóttur (Iris.Thorarinsdottir@or.is) með nafni, kennitölu, fyirtæki, heimilisfang, netfang, sími, vinnustaður og starfsheiti. Þeir sem eru skráðir í félagið frá upplýsingar um viðburði í tölvupósti.

25.03.14 Málþing og aðalfundur VAFRÍ 

Málþing um vatns- og fráveitumál verður haldið þriðjudaginn 8. apríl nk, frá kl. 15-16:30, í stofu HT-101 í Háskólatorgi.  Markmið málþingsins er að kynna nýjar rannsóknir og stefnur á sviðum vatns og fráveitna.  Flutt verða tvö erindi:

  • Reynir Sævarsson, fagstjóri Eflu: Hreinsun frárennslis á köldum svæðum
  • Sveinn Þórólfsson, prófessor NTNU: Orka í vatns- og fráveitum

Nánari upplýsingar um erindin er að finna í undirflipa „Viðburða“ á þessari vefsíðu.  Í kjölfar erindanna fara fram hefðbundin aðalfundarstörf. Allir eru velkomnir og um að gera að hvetja fólk á að mæta!

16.09.13 Vísindaferð í vatns- og fráveitu Akraness

VAFRÍ og Varma&Vélaverk bjóða í vísindaferð í vatns- og fráveitu Akraness þann 3. október 2013 frá kl. 13.00 – 17.00. Vatnsveita Akraness er ein af fáum vatnsveitum á Suðvesturlandi sem nýtir yfirborðsvatn. Vatnsbólið er við Akrafjall og er vatnið síað og geislað áður en því er veitt til notenda í bænum. Í ferðinni gefst okkur tækifæri á að skoða bæði vatnsbólið og geislahúsið, heyra um sögu vatnsveitunnar og rekstur og fræðast um hreinsibúnaðinn. Fráveitan á Akranesi er í uppbyggingu. Hreinsistöðvarbyggingin með tilheyrandi vélbúnaði verður skoðuð.  Við munum í lok dags þiggja þar léttar veitingar. Boðið verður upp á rútuferðir frá Reykjavík. Nánari upplýsingar, þám. dagskrá, er að finna undir „viðburðir“ á þessari vefsíðu.

30.05.13 Skýrsla um mengunarslysið í Bláfjöllum

Í dag birtist frétt á ruv.is „Heilbrigðisnefnd harmar mengunarslys“. Fréttin vísar í og fjallar um skýrslu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um mengunarslysið sem varð í Bláfjöllum 8. maí síðastliðinn.  Skýrslan greinir frá forsögu, slysinu sjálfu, fyrstu viðbrögðum eftir slys og áframhaldandi aðgerðir.

Skýrslan á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs

23.05.13 „Mengunarslysið sem fyllti mælinn“

Í dag birtist grein stjórnar Vatns- og Fráveitufélags Íslands um olíumengunarslysið í Bláfjöllum 8. maí sl, þar sem í kringum 600 lítrar af díselolíu láku í vatnsverndarsvæði höfuðborgarbúa, í Fréttablaðinu. Greinin fjallar um víðara samhengi slyssins, þ.e. þetta er sjötta slysið á 6 árum á vatnsverndarsvæðunum, og um þá mikilvægu hagsmuni sem eru í húfi. Hvatt er til þess að vatnsvernd verði tekin af meiri alvöru en endurtekin mengunarslys bera vitni um, að mannleg umsvif á vatnsverndarsvæðum sé meira ígrunduð og að allir vinni saman. Árið 2013 er jú skilgreint ár vatns-samvinnu af Sameinuðu þjóðunum.

Vefslóð greinar

30.04.13 Aðalfundur VAFRÍ 

Aðalfundur VAFRÍ fór fram í Háskóla Íslands 30. apríl í stofu V-158 í VRII.  Fyrirlestrar frá erindum Sveins Þórólfssonar og Jónasar Elíassonar má nálgast í undirflipa „Viðburða“ á þessari síðu, og skýrsla stjórnar undirflipa „Um félagið“.  20 manns sóttu fundinn.

16.04.13 Aðalfundur VAFRÍ 

Aðalfundur VAFRÍ verður haldinn í Háskóla Íslands 30. apríl nk, frá kl. 12-13:30, í stofu V-158 í VRII.  Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða tveir fyrirlestrar fluttir:

  • Sveinn Þórólfsson, Prófessor NTNU: Hreint vatn fyrir heiminn
  • Jónas Elíasson, Prófessor Emerítus HÍ: Kynning á Flóðahandbókinni

Boðið verður uppá samlokur. Allir eru velkomnir og um að gera að hvetja fólk á að mæta!

11.04.13 Ráðstefnan Veikir hlekkir í vatnsöflun á Íslandi 

Málþingið “Veikir hlekkir í vatnsöflun” fór fram fimmtudaginn 11. apríl 2013 í Háskólanum í Reykjavík á vegum VAFRÍ í samvinnu við HR og Samorku.  80 gestir sóttu þingið og voru erindin lífleg og fjölbreytt.  Þessi góða mæting bendir til að margir eru að vakna til vitundar um mikilvægi þessarar grunnþjónustu sem sjaldan kemur til umræðu.  Það kom greinilega fram á málþinginu að mikið af vandamálum tengdum vatnsöflun og vatnsverndarmálum eru stjórnsýslulegs eðlis.  Tæknimenntað fólk betr að upplýsa og viðhalda þekkingu á þessu sviði svo að sem bestar ákvarðanir verði teknar á sviðinu í framtíðinni.

Hægt er að nálgast glærukynningar á vefsíðu VAFRÍ, undir flipa ráðstefnunnar sem er vistaður undir „viðburðir“.

13.03.13 Tvö áhugaverð málþing um vatn
Árið 2013 hefur verið skilgreint sem ár vatns-samvinnu af Sameinuðu Þjóðunum. Félögum er bent á tvö mjög áhugaverð málþing:

(1)  22. mars 2013: Umhverfismengun á Íslandi – vatn og vatnsgæði,  sjá upplýsingar hér
(2) 11. apríl 2013: Veikir hlekkir í vatnsöflun , sjá dagskrá hér

26.02.13 Tveir viðburðir VAFRÍ að vori
Tveir viðburðir verða á vorönn:  11. apríl verður málþingið „Veikir hlekkir í vatnsöflun“ haldið í háskólanum í Reykjavík, frá kl. 13-17.  Aðalfundur Vafrí verður haldið þriðjudaginn 30. apríl.  Jónas Elíasson mun kynna flóðahandbókina og Sveinn Þórólfsson mun tala um vatnsmál í Noregi.

15.01.13 Ár vatns-samvinnu á vettvangi SÞ
Árið 2013 hefur verið skilgreint sem ár vatns-samvinnu af Sameinuðu Þjóðunum. Aðalmarkmið alþjóðlega ársins er að stofna til öflugra og varanlegs samstarfs og bandalaga um vatns-samvinnu á milli ríkja, samfélaga og hagsmunaaðila og tryggja á sama tíma sanngjarna og jafna dreifingu vatns í hverju samfélagi og með umhverfisvernd að leiðarljósi. Nánar hér.

21.12.12 Jólakveðja og ráðstefnurit VAFRÍ
Vatns- og fráveitufélag óskar öllum áhugamönnum um vatns- og fráveitumál gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Til yndisauka, var ráðstefnurit frá málþinginu um líffræðilega hreinsun skólps gefið út og sent til allra félagsmanna og þátttakanda á málþingu.  Einnig er hægt að nálgast ráðstefnuritið á þessari vefsíðu, bæði undir „viðburðir“ og „útgáfa“.

12.12.12 Skólphreinsun á forsíðu blaðanna
Á forsíða fréttablaðsins er frétt „Langt á eftir í skólphreinsun„. Fjórðungur landsmanna er án lágmarks skólphreinsunar. Tímamörk til að koma upp slíkri hreinsun runnu út fyrir sjö árum. Kostnaður við hreinsimannvirki er það mikill að sveitarfélög treysta sér ekki í framkvæmdir.  Talað er við Tryggva Þórðarson, sérfræðing á Umhverfisstofnun, sem jafnframt talaði um stöðu líffræðilegrar hreinsunar. Nánar á vefsíðu fréttablaðsins

09.11.12 Velsótt málþing um líffræðilega hreinsun skólps
Yfir 100 manns sóttu málþingið „Líffræðileg hreinsun skólps á Íslandi“ sem fór fram fimmtudaginn 8. nóvember 2012.  Nánari upplýsingar um þennan viðburð er að finna á vefsíðu VAFRÍ, undir „viðburðir“